Ágrip úr skýrslunni

Aðlögun að loftslags­breytingum

  • Til þess að auka skilning og þekkingu stefnumótenda og framkvæmdaaðila á afleiðingum loftlagsbreytinga til framtíðar þarf að veita auknu fjármagni til rannsókna á afleiðingunum á íslenska náttúru, samfélag og atvinnuvegi.

  • Svo unnt sé að miðla niðurstöðum rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga til viðeigandi aðila er mikilvægt að byggja upp gagnagrunn og vefsjá með myndrænni framsetningu á mismunandi loftslagssviðsmyndum fyrir Ísland og mögulegum áhrifum á einstaka geira.

  • Skilgreina þarf viðeigandi vísa til þess að meta áhrif loftslagsbreytinga sem ganga þvert á landamæri og hvaða áhættur þau fela í sér fyrir Ísland. Þannig er unnt að skilja yfirvofandi vá og móta aðgerðir til þess að draga úr neikvæðum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag.

  • Koma þarf á laggirnar fjárhagslegum hvötum og fjármögnunarleiðum til þess að flýta fyrir nauðsynlegum

    aðlögunaraðgerðum
    .

Þegar samfélög standa frammi fyrir loftslagsvá geta viðbrögðin verið af þrennum toga: Að þjást, draga úr losun eða aðlagast afleiðingunum. Aðlögun að loftslagsbreytingum er staðbundin aðgerð sem felst í því að undirbúa samfélög, fólk, kerfi og náttúru undir áhrif loftslagsbreytinga, lágmarka skaðlegar afleiðingar þeirra og nýta möguleg tækifæri. Aðlögun er lykilþáttur í því að tryggja langtímaviðbrögð við loftlagsbreytingum með það að markmiði að vernda fólk, lífsviðurværi og vistkerfi.

Áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta á Íslandi og ljóst að þau verða áskorun til framtíðar. Samfélagið stendur frammi fyrir mögulegum afleiðingum, svo sem fyrir efnahag, innviði, atvinnugreinar, öryggi og lýðheilsu.

Fyrsta stefna íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum, Í ljósi loftslagsvár, var birt í september 2021. Síðan hefur verið unnið að undirbúningi aðlögunar á Íslandi og stýrihópur skilaði tillögu að landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum í september 2023. Landsáætlun um aðlögun á að skilgreina ábyrgðaraðila

aðlögunaraðgerða
. Innleiðing slíkrar áætlunar mun gegna lykilhlutverki í að gera aðlögun að loftslagsbreytingum markvissari.

Í lögum um loftslagsmál er fjallað um aðlögun. Þó er íslenskur lagagrunnur varðandi aðlögun að loftslagsbreytingum almennt veikur og tekur lögbundið umboð ríkis og sveitarfélaga hvað varðar loftslagsmál nánast eingöngu til

mótvægisaðgerða
. Sveitarfélögum ber sem stendur ekki lagaleg skylda til þess að huga að aðlögun að loftslagsbreytingum.

Samþætta þarf vinnu á sviði aðlögunar og

mótvægisaðgerða
og tryggja samlegð til þess að koma í veg fyrir að þær vinni hvor á móti annarri. Skipulag og umhverfismat eru lykilstjórntæki til að vinna farsællega að aðlögun byggða og samfélags. Tryggja þarf undirstöður loftslagsþolins skipulags með skýrum markmiðum, leiðbeiningum, hvatningu og stuðningi við skipulagsyfirvöld í héraði.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja að hægt sé að byggja ákvarðanir varðandi aðlögun á áreiðanlegum gögnum og rannsóknum. Slíkt krefst aukins fjármagns til rannsókna og vöktunar á áhrifum loftslagsbreytinga á íslenska náttúru og samfélag.

Miðlun upplýsinga til að brúa bil á milli vísindafólks, stefnumótenda og almennings varðandi áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga er lykilatriði. Vefsjár, eins og Loftslagsatlas, með myndrænni
framsetningu á loftslagssviðsmyndum fyrir Ísland er öflugt verkfæri til að auka skilning á áhrifum loftslagsbreytinga

Áhættumat og áhættustýring er mikilvægur hluti af aðlögun og greina þarf

loftslagsáhættu
fyrir alla geira og samfélagshópa. Greina þarf betur áhrif loftslagsbreytinga þvert á landamæri á efnahag og samfélag á Íslandi. Þannig er hægt að meta hversu berskjaldað Ísland er gagnvart slíkum áhættum og skilgreina mælikvarða fyrir viðbragðsáætlanir og langtímastefnur.

Þrátt fyrir að

aðlögunaraðgerðir
taki almennt mið af umhverfi og aðstæðum á hverjum stað er hægt að læra af reynslu annarra. Það er því mikilvægt að efla samvinnu innanlands og á alþjóðlegum vettvangi.


Loftslagsbreytingar hafa þegar haft áhrif á náttúrufar og lífsskilyrði á Íslandi. Til þess að mæta þeim áskorunum sem afleiðingum loftslagsbreytinga fylgir er aðlögunar þörf. Afleiðingarnar fara vaxandi og því mikilvægt að aðlögun sé í brennidepli hjá ríki og sveitarfélögum.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Þegar samfélög standa frammi fyrir loftslagsvá geta viðbrögðin verið af þrennum toga: Að þjást eða draga úr losun og aðlagast afleiðingunum. Aðlögun að loftslagsbreytingum er staðbundin aðgerð sem felst í því að undirbúa samfélög, fólk, kerfi og náttúru undir áhrif loftslagsbreytinga, lágmarka skaðlegar afleiðingar þeirra og nýta möguleg tækifæri. Aðlögun er lykilþáttur í því að tryggja langtímaviðbrögð við loftlagsbreytingum með það að markmiði að vernda fólk, lífsviðurværi og vistkerfi.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000