Ágrip úr skýrslunni

Þróun loftslags­

  • Það stefnir í að veðurfar á Íslandi í lok aldarinnar verði gjörólíkt því sem verið hefur frá landnámi. Hugsanlega án fordæma síðan síðasta jökulskeiði lauk, fyrir um tíu þúsund árum.

  • Loftslagslíkön ná að herma þá hlýnun sem varð á Íslandi og nærliggjandi svæðum á síðustu áratugum eingöngu ef reiknað er með sögulegri aukningu gróðurhúsalofttegunda.

  • Fram að miðbiki aldarinnar hlýnar á bilinu 1,0 til 1,7 °C [-1,1 til 2,6] frá meðaltali áranna 1986 til 2015 samkvæmt loftslagslíkönum og lítill munur er á hlýnun milli ólíkra sviðsmynda um losun gróðurhúsalofttegunda.

  • Í lok aldarinnar dregur sundur milli sviðsmynda, í þeirri heitustu er hlýnunin 3,5 °C [2,3 til 5,4] en 1,0 °C [-1,0 til 4,1] í þeirri köldustu. Í sviðsmyndum sem liggja á milli þeirra heitustu og köldustu er hlýnunin í lok aldarinnar 2,0 til 2,8 °C [0,0 til 5,4].

  • Niðurstöður líkanreikninga benda til þess að hlýnun verði meiri norðan við landið en sunnan við það. Í mörgum líkönum gætir tímabundinnar, staðbundinnar kólnunar.

  • Líkanreikningar sýna að ársúrkoma gæti aukist um rúmlega 1% fyrir hverja gráðu sem hlýnar. Aftakaúrkoma gæti aukist um 5 til 15%, sem er aukning um 4 til 15 mm á sólarhring frá núverandi úrkomu fyrir flest svæði.

Meginmál:

Verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda verður veðurfar á Íslandi í lok aldarinnar gjörólíkt því sem verið hefur frá landnámi og hugsanlega án fordæma síðan síðasta jökulskeiði lauk, fyrir um tíu þúsund árum. Loftslagslíkön ná að herma þá hlýnun sem varð á Íslandi og nærliggjandi svæðum á síðustu áratugum sé reiknað með sögulegri aukningu gróðurhúsalofttegunda. Í útreikningum þar sem styrk gróðurhúsalofttegunda er haldið föstum herma líkönin ekki
þá hlýnun sem orðið hefur á síðustu áratugum.

Útreiknuð hlýnun á lofthita fram að miðbiki aldarinnar er í mismunandi sviðsmyndum á bilinu 1,0 til 1,7 °C [-1,1 til 2,6] frá meðaltali áranna 1986 til 2015. Fram að miðbiki aldarinnar er ekki mikill munur á hlýnuninni fyrir ólíkar sviðsmyndir um losun gróðurhúsalofttegunda. Á síðari hluta aldarinnar dregur sundur með ólíkum sviðsmyndum og í heitustu sviðsmyndinni er hlýnun á Íslandi og nærliggjandi svæðum í lok aldarinnar 3,5 °C [2,3 til 5,4] en 1,0 °C [-1,0 til 4,1] í þeirri köldustu. Af þeim fjórum losunarsviðsmyndum sem voru skoðaðar munu sú heitasta og sú kaldasta tæplega raungerast. Í sviðsmyndum sem liggja á milli þeirra heitustu og köldustu er hlýnunin í lok aldarinnar 2,0 til 2,8 °C [0,0 til 5,4].

Verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda verður veðurfar á Íslandi í lok aldarinnar gjörólíkt því sem verið hefur frá landnámi og hugsanlega án fordæma síðan síðasta jökulskeiði lauk fyrir um tíu þúsund árum.

Mynd 1: Samantekt hitabreytinga í Íslandsreitnum. Sögulegar keyrslur, og hitagögn. auk miðlungssviðsmynda um hlýnun. Sjá nánar kafla þrjú.

Líkönum ber illa saman um úrkomubreytingar til loka aldarinnar en útlit er fyrir að úrkoma aukist um rúmlega 1% fyrir hverja gráðu sem hlýnar. Niðurstöður benda þó til þess að aukningin verði meiri á haustmánuðum en minnst síðla vetrar. Ákefð úrkomu eykst og aftakaúrkoma gæti aukist um 5 til 15%. Það er aukning um 4 til 15 mm á sólarhring frá núverandi úrkomu fyrir flest svæði en meira fyrir þá staði þar sem aftök eru mest. Í heitari sviðsmyndum styttist endurkomutími núverandi 100 ára úrkomuatburðar niður í 12 til 17 ár.

Niðurstöður líkanreikninga benda til þess að hlýnun verði meiri norðan við landið en sunnan við það. Jafnvel þó að hlýni á öldinni í öllum sviðsmyndum og flestum líkönum gætir tímabundinnar staðbundinnar kólnunar í mörgum þeirra. Slík kólnun er algengari suður af landinu og gætir skemur í heitari sviðsmyndum. Í 85 til 95% líkana gætir hennar skemur en 20 ár.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Þróun loftslags

Verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda verður veðurfar á Íslandi í lok aldarinnar gjörólíkt því sem verið hefur frá landnámi og hugsanlega án fordæma síðan síðasta jökulskeiði lauk fyrir um tíu þúsund árum.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000