Ágrip úr skýrslunni

Lýðheilsa, heilbrigðis­kerfið og samfélagið

  • Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru loftslagsbreytingar stærsta heilsufarsógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir.

  • Auka þarf þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á lýðheilsu og breytta sjúkdómabyrði í íslensku samhengi fyrir mismunandi loftslagssviðsmyndir.

  • Efla þarf heilbrigðisviðbúnað og mönnun til að auka áfallaþol heilbrigðiskerfisins.

  • Tryggja þarf aðgengi allra að

    fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu
    , þar með talið geðheilbrigðisþjónustu. Fjárfesting í lýðheilsu getur skilað ábata og minnkað veikleika gagnvart loftslagstengdri áhættu.

  • Auk heilbrigðiskerfisins getur fjárfesting í öðrum kerfum skilað sameiginlegum ábata og minnkað veikleika gagnvart loftslagstengdri áhættu. Borgarkerfi og önnur þéttbýliskerfi eru því sérstaklega mikilvægur vettvangur fyrir loftslagsþolna þróun.

  • Samfélög, þar sem ójöfnuður er mikill, hafa minni viðnámsþrótt gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga. Viðkvæmir og jaðarsettir hópar standa alla jafna hallari fæti gagnvart heilsufarsógnum vegna loftslagsbreytinga, sem leiðir til frekari ójöfnuðar.

Andleg, líkamleg og félagsleg heilsa og líðan fólks ræðst af flóknu samspili einstaklinga við sitt nánasta umhverfi og aðstæður, þar með talið náttúrlegt umhverfi (sjá mynd 1). Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru loftslagsbreytingar stærsta heilsufarsógnin sem mannkynið
stendur frammi fyrir. Á heimsvísu valda loftslagsbreytingar m.a. aukningu í algengi smitbærra og ósmitbærra sjúkdóma, ótímabærra dauðsfalla og vannæringar.

Víðtækar rannsóknir staðfesta að loftslagsbreytingar ógna heilsu fólks og vistkerfum um allan heim. Þær hafa neikvæð áhrif á andlega heilsu og líðan með beinum og óbeinum hætti og eru í vaxandi mæli ástæða þvingaðra fólksflutninga, tilfærslu fólks og átaka. Ljóst er að samfélög víða um heim standa misjafnlega að vígi og skilyrði fyrir loftslagsþolna þróun eru ólík á milli hópa, innan og á milli landa.

Lykilfarvegur fyrir loftslagsþolna þróun í heilbrigðiskerfinu er að tryggja aðgengi allra að

fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu
, þar með talið geðheilbrigðisþjónustu. Fjárfesting í lýðheilsu getur skilað ábata og minnkað veikleika einstaklinga og samfélaga gagnvart loftslagstengdri áhættu. Heilsuefling og forvarnir gegna lykilhlutverki til að viðhalda og bæta heilsu og líðan fólks á öllum æviskeiðum.

Auk heilbrigðiskerfisins getur fjárfesting í öðrum kerfum skilað sameiginlegum ábata og minnkað veikleika gagnvart loftslagstengdri áhættu. Má þar sem dæmi nefna ýmsa innviði, almenningssamgöngur, húsnæði, hreina orku, vatn og hreinlæti, aðgengi að hollum mat, félagsþjónustu og ýmsa þætti sem hafa áhrif á félagstengsl og þátttöku í samfélaginu. Borgarkerfi og önnur þéttbýliskerfi eru því sérstaklega mikilvægur vettvangur fyrir loftslagsþolna þróun.

Mynd 1: Áhrifaþættir heilsu og vellíðanar og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Aðlöguð útgáfa embættis landlæknis af regnbogamódeli Dahlgren og Whitehead út frá íslenskum aðstæðum.

Samfélög, þar sem ójöfnuður er mikill, hafa minni viðnámsþrótt gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga, s.s. flóðum, hita og þurrki. Rannsóknir sýna að viðkvæmir og jaðarsettir hópar standa alla jafna hallari fæti gagnvart heilsufarsógnum vegna loftslagsbreytinga, t.d. útbreiðslu sjúkdóma, sem leiðir til frekari ójöfnuðar. Ójöfnuður í heilsu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu er staðreynd á Íslandi, líkt og annars staðar í heiminum.

Tilkynningum um skógarmítla, sem geta borið með sér smitsjúkdóma, hefur fjölgað á Íslandi
og tímaspursmál hvenær smit berst í fólk hér á landi. Moskítóflugur eru annað dæmi um smitferjur sem hafa til þessa ekki náð að nema land á Íslandi.

Með aukinni framleiðni gróðurs á landinu eykst styrkur frjókorna í lofti sem hefur m.a. þau
áhrif að ofnæmistilfelli geta versnað og ný bæst við.

Á Íslandi liggur þegar fyrir töluverð þekking á áhrifum náttúruhamfara á einstaklinga og samfélög. Samkvæmt nýlegri rannsókn fundu um 20% fullorðinna fyrir miklum umhverfiskvíða og var hlutfallið hæst hjá aldurshópnum 30 ára og yngri. Nauðsynlegt er að auka þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á lýðheilsu í víðasta skilningi í íslensku samhengi fyrir mismunandi loftslagssviðsmyndir. Hér er átt við ýmsa áhrifaþætti sem eru vel þekktir hornsteinar lýðheilsu, breytta sjúkdómabyrði og líðan.

Efla þarf heilbrigðisviðbúnað og mönnun til að auka áfallaþol heilbrigðiskerfisins. Meðal annars þarf að horfa til kjarnainnviða um allt land og einnig til minni byggða sem standa hallari fæti gagnvart skyndilegum áföllum, m.a. vegna náttúruvár.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Lýðheilsa, heilbrigðiskerfið og samfélagið

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru loftslagsbreytingar stærsta heilsufarsógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir. Á heimsvísu valda loftslagsbreytingar m.a. aukningu í algengi smitbærra og ósmitbærra sjúkdóma, ótímabærra dauðsfalla og vannæringar.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000