Ágrip úr skýrslunni

Áhætta, náttúruvá og áhættustýring

  • Íslenskt samfélag kann að vera berskjaldað gagnvart flókinni og kerfislægri áhættu vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Slíkar áhættur eru m.a. til staðar í matvæla- og fjármálakerfum og í aðfangakeðjum. Þá getur

    loftslagsáhætta
    utan Íslands aukið komu flóttamanna til landsins.

  • Ónógar rannsóknir hafa farið fram á þessum áhættum hér á landi og mikilvægar upplýsingar vantar.

  • Þörf er á átaki til að greina kerfislæga áhættu vegna áfalla utan landssteinanna á íslenskt samfélag. Áhættan er illa þekkt, en í ljósi tjónnæmis og varnarleysis samfélagsins kann hún þó að vera mikil.

  • Loftslagsbreytingar auka náttúruvá, t.d. vegna aftakaúrkomu, hvassviðra, hættu á flóðum í ám og úr jaðarlónum, skriðufalla, sjávarflóða, tíðari eldgosa og gróðurelda.

  • Áhættustýringu þarf að beita til að draga úr líkum þess að alvarleg tjón verði. Mikilvægt er að tekið sé meira tillit til aukinnar náttúruvár við skipulagsgerð.

Íslenskt þjóðfélag kann að verða fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga erlendis, sem m.a. getur birst í komu loftslagsflóttafólks. Yfirleitt eru margar ástæður fyrir því að fólk leggur á flótta. Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á ástæður til flótta í samspili við aðra ógn, svo sem stríð, pólitísk átök og efnahagsþrengingar.

Áhættum, sem tengjast loftslagsbreytingum, er hægt að skipta í beina, flókna, afleidda og kerfislæga áhættu. Íslenskt samfélag kann að vera berskjaldað gagnvart flókinni og kerfislægri áhættu vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Slíkar áhættur eru m.a. til staðar í matvæla- og fjármálakerfum og í aðfangakeðjum (sjá mynd 1). Ónógar rannsóknir hafa farið fram á þessum áhættum hér á landi og mikilvægar upplýsingar og greiningar á þeim skortir. Þörf er á átaki til þess að greina kerfislæga áhættu vegna áfalla erlendis á íslenskt samfélag. Þessi áhætta er illa þekkt en gæti orðið mikil í ljósi tjónnæmis og varnarleysis þjóðfélagsins. Aukin náttúruvá telst til beinnar áhættu vegna loftslagsbreytinga. Hún getur tengst atburðum eins og aftakaúrkomu, flóðum í ám, skriðuföllum, sjávarflóðum og gróður- og skógareldum.

Hnattræn hlýnun kann að draga úr tíðni fyrirstöðuhæða yfir Grænlandi að vetri, sem gæti
aukið tíðni lægðagangs til Íslands. Vegna samdráttar í hafísþekju mun vindstyrkur yfir hafi
aukast norðan og vestan við landið. Jaðarlón myndast við hörfandi jökla og hættan á berghruni í jaðarlón verður nýr áhættuþáttur. Bráðnun sífrera og rýrnun jökla getur tímabundið gert hlíðar óstöðugar. Rannsóknir á þessari vá á síðustu árum sýna að tíðni skriðufalla hefur aukist þótt ekki verði öll skriðuföll hér á landi rakin til loftslagsbreytinga.

Gróðurfarsbreytingar, aukin tíðni þurrka og minnkandi beit hafa í för með sér aukna hættu af gróður- og skógareldum. Einungis virðist tímaspursmál hvenær útbreiddur gróðureldur veldur alvarlegu tjóni í byggð. Lagt hefur verið mat á útbreiðslu verstu flóða við núverandi aðstæður og fyrir ólíkar sviðsmyndir um loftslagsbreytingar og rýrnun jökla. Tíðni og ákefð sjávarflóða mun aukast með hækkandi sjávarstöðu.

Farglétting vegna rýrnunar jökla
eykur kvikumyndun í jarðskorpunni sem kann að leiða til stærri og/eða tíðari eldgosa.

Íslenskt þjóðfélag býr yfir mikilli þekkingu og reynslu við að bregðast við náttúruvá. Mikilvægt er að áhættustýringu verði beitt með skipulögðu áhættumati og viðbrögðum til að draga úr líkum þess að alvarleg tjón verði. Horfa þarf til aukinnar náttúruvár við skipulagsgerð.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Áhætta, náttúruvá og áhættustýring

Íslenskt þjóðfélag býr yfir mikilli þekkingu og reynslu við að bregðast við náttúruvá. Mikilvægt er að áhættustýringu verði beitt til að draga úr líkum þess að alvarleg tjón verði með skipulögðu áhættumati og viðbrögðum. Horfa þarf til aukinnar náttúrvár við skipulagsgerð.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000