Ágrip úr skýrslunni

Byggðir innviðir

  • Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á ýmsa byggða innviði.

  • Áhrif á forða, vatnsöflun og dreifikerfi vatnsveitna geta aukið hættu á örveru- eða seltumengun vatnsbóla og breytt grunnvatnsstöðu. Minni vatnsveitur, og þau samfélög sem nýta þær, eru berskjaldaðri fyrir áhrifum.

  • Úrkomubreytingar, auknar sveiflur í veðurfari, fjölgun hlákudaga og hækkandi grunnvatns- og sjávarstaða hafa áhrif á virkni fráveitukerfa. Áhrifin eru meiri á blönduð fráveitukerfi.

    Blágrænar ofanvatnslausnir
    geta dregið úr áhrifum.

  • Áhrif á umhverfi orkuframleiðslu eru veruleg en mismunandi eftir auðlindum. Rýrnun jökla mun hafa veruleg áhrif á vatnsaflsframleiðslu. Möguleikar aukast á ræktun

    orkuplantna
    . Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á rekstraröryggi vindorkuvera og raforkukerfa.

  • Greina þarf breytingar á eftirspurn eftir vatni, hita og rafmagni í samhengi loftslagsbreytinga og viðbragða við þeim.

  • Áhrif á vegasamgöngur fela í sér aukna viðhaldsþörf og styttri líftíma slitlags. Stöðugleiki undirlags getur minnkað og óstöðugleiki jarðlaga valdið tjóni. Flóðahætta eykst fyrir innviði allra gerða samgangna. Uppfært mat á sjávarstöðubreytingum sýnir að óvissan um mögulegar breytingar hefur aukist.

  • Hafís hefur dregist saman en getur enn truflað siglingar. Borgarísjakar gætu orðið meira vandamál ef íshellur á Grænlandi brotna upp. Öryggismál, vöktun og alþjóðleg samvinna er mikilvæg, ekki síst fyrir nýjar siglingaleiðir.

Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á ýmsa innviði á Íslandi sem hefur kallað
á viðbrögð stofnana og fyrirtækja.

Áhrif loftslagsbreytinga, s.s. þurrkar, aukin úrkomuákefð, umhleypingar, flóð og hækkuð sjávarstaða, geta haft áhrif á forða, vatnsöflun og dreifikerfi vatnsveitna og þar með á neysluvatn. Meðal áhrifa eru hætta á örveru- eða seltumengun vatnsbóla og breytt grunnvatnsstaða (sjá mynd 1). Minni vatnsveitur eru berskjaldaðri fyrir áhrifum. Rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á eftirspurn eftir ferskvatni er ábótavant.

Úrkomubreytingar, auknar sveiflur í veðurfari, fjölgun hlákudaga og hækkandi grunnvatnsog sjávarstaða hefur áhrif á virkni fráveitukerfa. Um samverkan þátta er einnig að ræða, svo sem þegar hærri sjávarstaða og aukin úrkomuákefð auka líkur á bakflæði í lögnum. Fyrir blönduð fráveitukerfi geta áhrifin verið verri en í aðgreindum kerfum, þar sem ofanvatn og skólp er ekki í sömu lögnum.

Blágrænar ofanvatnslausnir
hafa reynst mikilvægar til að draga úr flóðahættu samfara aftakarigningu.

Flóðaatburðir hér á landi vegna rigningar sem fellur á frosna jörð eða á snjó eru vaxandi vandamál fyrir fráveitukerfi með tilheyrandi flóðahættu.

Mynd 1: Hlutfall (%) vatnsbóla á Norðausturlandi í áhættu vegna flóða eða skriðufalla (María J. Gunnarsdóttir o.fl., 2019)

Rýrnun jökla vegna loftslagsbreytinga hefur mikil áhrif á vatnsaflsframleiðslu á Íslandi. Sú aukning, sem þegar hefur átt sér stað, hefur verið nýtt í núverandi kerfi vatnsaflsvirkjana og miðlana þeirra, m.a. með stækkun Búrfellsvirkjunar. Þróun áframhaldandi aukningar er óviss en nýting hennar er háð
uppbyggingu í samræmi við þróun auðlindarinnar.

Þurrkar, breytingar á úrkomudreifingu og hlutfalli rigningar og snævar í úrkomu innan ársins munu hafa áhrif á rekstur miðlana og vatnsaflsframleiðslu. Breytingar á hvassviðratíðni geta haft áhrif á rekstraröryggi vindorkuvera, en sumarhlýnun getur aukið möguleika á ræktun plantna sem nýta má til orkuframleiðslu.

Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á rekstraröryggi raforkukerfis, t.d. með tilfærslu þeirra svæða þar sem ísingar gætir helst, vegna hvassviðra, ofanflóða og annarrar loftslagstengdrar náttúruvár.

Hlýnun getur dregið úr eftirspurn eftir orku til húshitunar en þrátt fyrir minnkun í meðalnotkun geta sveiflur í veðurfari aukið tímabundna álagstoppa. Mikilvægt er að greina áhrif fólksfjölgunar og loftslagsbreytinga á allar hita- og vatnsveitur landsins.

Loftslagsbreytingar geta aukið eftirspurn eftir raforku til kælimiðla og orkuskipti munu hafa áhrif á eftirspurn eftir raforku.

Ólíkar forsendur um umfang orkuskipta gera það að verkum að mismunandi sviðsmyndir um orkuþörf vegna orkuskipta ná frá engri þörf á viðbótarraforku til ríflega tvöföldunar á raforkuframleiðslu. Mikilvægt er að umskipti í orkuframleiðslu byggi á vandaðri ákvarðanatöku og miði að því að ná víðtækri samfélagssátt.

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á vegasamgöngur, m.a. vegna hlýnunar, hitabylgna, þurrka og tíðari hitasveiflna um frostmark. Áhrifin eru m.a. blæðingar í yfirborði vega, skemmdir á burðarlagi og styttri líftími slitlags. Þær geta einnig dregið úr þörf á snjómokstri en á svæðum, þar sem hitasveiflur um frostmark aukast, verður viðhaldsþörf slitlags meiri. Þá getur breytt grunnvatnsstaða haft áhrif á burðarþol og aukinn vindur valdið tjóni á slitlagi.

Sjávarstöðubreytingar hafa áhrif á rof og flóðahættu á vegum á strandsvæðum en á fjallvegum gæti minna frost í jörðu haft áhrif á stöðugleika undirlags. Aukin skriðuföll og óstöðugleiki jarðlaga getur einnig valdið tjóni á öllum innviðum samgangna.

Áhrif á innviði flugs eru sambærileg áhrifum á innviði vegasamgangna. Flóðahætta er til staðar á flugvöllum um allt land. Áhrif á flugsamgöngur geta einnig birst í breyttum flugleiðum, ferðatíma og eldsneytisnotkun, auk áhrifa á flugtaksþyngd og lengd flugbrauta.

Helstu áhættuþættir sem tengjast innviðum samgangna á sjó eru flóðahætta og skemmdir vegna hækkunar sjávarstöðu og aukinnar tíðni illviðra með áhlaðanda (sjá mynd 2). Samlegðaráhrif áhættuþátta geta ýkt vænt áhrif. Hærri sjávarstaða kann að kalla á aukna viðhaldsþörf og frekari uppbyggingu sjóvarna. Uppfært mat á sjávarstöðubreytingum sýnir að óvissa um væntar breytingar hefur aukist.

Mynd 2: Flóð í höfninni á Patreksfirði (Ljósmynd: Smári Gestsson, birt með leyfi).

Hafís á siglingaleiðum nærri Íslandi hefur dregist saman á undanförnum áratugum en getur þó truflað siglingar hluta ársins. Borgarísjaka frá Grænlandi mun áfram reka á siglingaleiðir og gætu mögulega orðið meira vandamál ef íshellur á Grænlandi brotna upp.

Öryggismál og vöktun tengd hafís, borgarís og lagnaðarís er mikilvæg. Alþjóðleg samvinna um eftirlit, vöktun og miðlun hafísupplýsinga hefur reynst árangursrík og mikilvægt að henni sé haldið áfram.

Verði hnattræn hlýnun á bilinu 1.5–2.0 °C er líklegt að sumarhafís hverfi að mestu af Íshafinu sum ár, en hlýni meira en 3 °C muni það gerast flest ár. Dragist hafís verulega saman opnast nýjar siglingaleiðir um Íshafið. Greining á ábata Íslands af opnun siglingaleiða um Íshafið bendir ekki til þess að staðsetning landsins veiti okkur samkeppnisforskot nema í tilviki svokallaðrar miðleiðar.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Byggðir innviðir

Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á ýmsa innviði á Íslandi sem hefur kallað á viðbrögð stofnana og fyrirtækja. Áhrif loftslagsbreytinga, s.s. þurrkar, aukin úrkomuákefð, umhleypingar, flóð og hækkuð sjávarstaða, geta haft áhrif á forða, vatnsöflun og dreifikerfi vatnsveitna og þar með á neysluvatn.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000