Ágrip úr skýrslunni

Samfélag, menning og félagslegir innviðir

  • Skilningur á samfélags- og menningarlegum víddum loftslagsbreytinga er afar mikilvægur, ekki síst til að tryggja réttlæti, styðja við lýðræði og loftslagsaðgerðir. Enn sem komið er eru rannsóknir sem fjalla um menningar- og samfélagslegar víddir loftslagsbreytinga fágætar á Íslandi og því brýnt að slíkar rannsóknir verði efldar.

  • Stofnanatraust er forsenda stuðnings almennings við aðgerðir í loftslagsmálum. Mikilvægt er að stofnanastrúktúr og stjórnsýsla loftslagsmála séu vel skipulögð og skilvirk og uppfylli þannig slíkt traust.

  • Beina þarf athygli að réttlæti tengdu bæði aðlögun og umskiptum. Rannsóknir á réttlætisvídd loftslagsmála vantar, sem og beinar aðgerðir.

  • Afleiðingar loftslagsbreytinga og viðbragða gegn þeim munu hafa áhrif á menningu, listir, menntun og gildismat. Menntun og skapandi greinar geta stuðlað að nauðsynlegum breytingum á gildismati og hegðun fólks í átt að aukinni sjálfbærni.

  • Loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim hafa þegar haft umtalsverð áhrif á lög, reglur og dómsmál víða um heim, meðal annars hafréttarmál. Ráðast þarf í að meta stöðu grunnlínupunkta til að tryggja stærð efnahagslögsögunnar til framtíðar.

Viðhorf Íslendinga til loftslagsbreytinga hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Mikill meirihluti landsmanna (86%) telur að loftslagsbreytingar eigi sér stað og að þær séu vandamál. Meirihluti (60%) telur að þeir beri ábyrgð á að draga úr loftslagsbreytingum og að aðgerðir muni skapa komandi kynslóðum betra líf (81%). Færri telja að framfærslukostnaður muni aukast (28%) og að orkuverð muni hækka (35%). Munur er á svörum eftir aldri, kyni og menntun. Loftslagsmálin eru því ofarlega í hugum fólks sem umhverfisvandamál sem þarf að takast á við.

Almenningur er hlynntari notkun ívilnana (69%) en hækkun skatta á jarðefnaeldsneyti (43%) sem loftslagsaðgerð. Um 70% vilja tryggja réttlát umskipti. Stofnanatraust er mikilvægt til að tryggja stuðning almennings við loftslagsaðgerðir. Því er mikilvægt að stofnanastrúktúr og stjórnsýsla loftslagsmála séu vel skipulögð og skilvirk. Þannig er unnt að viðhalda trausti og stuðningi almennings við aðgerðir í loftslagsmálum.

Miðlun upplýsinga um loftslagsmál er mikilvæg, en falsfréttir, upplýsingaóreiða og samsæriskenningar geta haft áhrif á viðhorf til vísindalegrar þekkingar og aðgerða í loftslagsmálum. Stjórnvöld þurfa að bregðast við slíku en standa á sama tíma vörð um lýðræðislega umræðu.

Siðferðislegar áskoranir í loftslagsmálum eru af ýmsum toga en hverfast meðal annars um margs konar réttlæti og óréttlæti. Efnameira fólk, bæði innanlands og á alþjóðavísu, losar meira en þeir sem minna hafa á milli handanna. Afleiðingar loftslagsbreytinga bitna auk þess meira á þeim sem fátækari eru. Félagslegar og efnahagslegar aðstæður, sem og ójöfnuður, hefur áhrif á aðlögunargetu. Ljóst er að loftslagsbreytingar munu auka áþján og að þær munu hafa dauðsföll í för með sér. Siðferðisleg ábyrgð þeirra sem mest losa er því veruleg. Losun fyrri og núverandi kynslóða mun bitna á kynslóðum framtíðarinnar. Áhersla á kynslóðatengt réttlæti hefur leitt ungt fólk til þess að stofna samtök sem berjast gegn loftslagsvá. Eru samtökin afar gagnrýnin á hugtakið loftslagsbreytingar og telja það ekki ná að lýsa þeim hörmungum sem ganga yfir heimsbyggðina vegna þeirra. Vilja þau frekar nota hugtakið loftslagshamfarir.

Loftslagsbreytingar velta einnig upp spurningum um stöðu mannsins í náttúrunni og þeim djúpu gildismats- og viðhorfsbreytingum sem þurfa að eiga sér stað til að vinna á loftslagsvánni. Ljóst er að gildismat, viðhorf og sambúð fólks við náttúruna þarf að breytast til þess að hægt sé að bregðast við loftslagsvandanum

Samofin menningu tiltekins hóps eða samfélags er kjarni hennar – hin sameiginlega sjálfsmynd.
Hún er ávallt í endurskoðun og endursköpun, oft mótsagnakennd og alltaf í samhengi og samspili
við aðra þætti, eins og landið sem hópurinn býr í og söguna og umheiminn sem mótuðu hana.
Segja má að svo róttækar breytingar, sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér, séu og muni
verða ákveðin ógn við bæði sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar. Til að mæta óljósri framtíð
þarf að gera öllum kleift að vera með í endurskoðun og endursköpun sjálfsmyndar, menningar og
samfélags á sem réttlátastan hátt

Mynd 1: Mótmæli á COP26 (Mynd: Anna Hulda Ólafsdóttir, birt með leyfi)

Réttlát umskipti fela í sér að byrðum og ávinningi af viðbrögðum við loftslagsbreytingum sé dreift með sanngjörnum hætti á milli hópa þjóðfélagsins. Þetta felur meðal annars í sér að þeir sem missa atvinnu fái ný tækifæri, að mótun aðgerða sé lýðræðisleg og að þátttaka og réttindi allra hópa samfélagsins séu tryggð. Einnig þarf að tryggja að

mótvægisaðgerðir
bitni ekki meira á þeim efnaminni eða minnihlutahópum. Birtingarmyndir óréttlátra umskipta á Íslandi og aðgerðir gegn þeim hafa lítið verið rannsakaðar. Þó má færa rök fyrir því að aðgerðir sem miða að því að draga úr
losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum hafi haft mismunandi áhrif á ólíka þjóðfélagshópa.

Samband kyns og loftslagsbreytinga er einnig þáttur sem þarf að skoða vel þegar gripið er til aðgerða gegn loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra. Þannig eru afleiðingar loftslagsbreytinga oft alvarlegri fyrir konur en karla þar sem þær standa oft hallari fæti í samfélaginu; félagslega og efnahagslega

Samfélagslegir innviðir, svo sem mennta-, menningar- og trúarstofnanir, auk heilbrigðisstofnana, skipta miklu máli þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga og viðbrögðum við þeim. Menntun er ekki síst mikilvæg til að stuðla að breytingum á gildismati og hegðun fólks í átt til sjálfbærari framtíðar. Menntastofnanir gegna því mikilvægu hlutverki, í viðbrögðum samfélagsins við loftslagsbreytingum, í vinnu sinni með nýjum kynslóðum sem þurfa að takast á við og aðlagast breyttum heimi.

Trúarbrögð, leiðtogar þeirra og stofnanir, t.d. kirkjan, eru mikilvægt afl í félags- og menningarlífi margra, hérlendis og erlendis. Þau hafa, og munu í auknum mæli, sinna sínu hlutverki við að fá fylgjendur sína til að breyta rétt gagnvart náttúrunni og vekja von hjá almenningi í baráttunni við þá vá sem felst í loftslagsbreytingum. Guðfræðingar víða um heim hafa kallað eftir endurskoðun á kristinni guðfræði í ljósi loftslagsvandans. Trú- og lífsskoðunarfélög hér á landi og erlendis hafa ályktað um loftslagsvána þar sem lögð er áhersla á vitundarvakningu og aðgerðir.

Listafólk, hönnuðir og arkitektar sinna rannsóknum á sambandi manneskju og umhverfis. Er framlag þeirra afar mikilvægt til að varpa ljósi á afleiðingar loftslagsbreytinga og aðgerða gegn þeim, enda eru aðferðir þeirra og nálgun á viðfangsefnið skapandi, spennandi og aðgengileg almenningi.

Loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim hafa þegar haft umtalsverð áhrif á lög, reglur og dómsmál víða um heim. Hérlendar reglur hafa þróast frá því að vera brotakenndar í að vera heilsteyptari og markvissari og eru evrópskar reglugerðir á sviði loftslagsréttar burðarásinn í íslenskum loftslagsrétti. Fjöldi dómsmála tengd loftslagsrétti hefur verið höfðaður erlendis og hérlendis. Í Landsrétti féll m.a. úrskurður um meðferð losunarheimilda WOW air.

Afleiðingar loftslagsbreytinga, svo sem hækkun yfirborðs sjávar, getur haft áhrif á hafrétt. Hærra sjávarborð og landrof getur breytt tilkalli ríkja til hafsvæða, fiskimiða og haft áhrif á efnahagslögsögu. Nokkrir grunnlínupunktar, sem marka íslensk hafsvæði, geta verið í hættu. Mikilvægt er að hafa betra eftirlit með grunnlínupunktum sem marka íslensk hafsvæði og ráðast í viðeigandi aðgerðir til að koma í veg fyrir breytingar á mörkun hafsvæða.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Samfélag, menning og félagslegir innviðir

Viðhorf Íslendinga til loftslagsbreytinga hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Mikill meirihluti landsmanna (86%) telur að loftslagsbreytingar eigi sér stað og að þær séu vandamál. Meirihluti (60%) telur að þeir beri ábyrgð á að draga úr loftslagsbreytingum og að aðgerðir muni skapa komandi kynslóðum betra líf (81%). Færri telja að framfærslukostnaður muni aukast (28%) […]

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000