Ágrip úr skýrslunni

Ástand sjávar og lífríki í sjó

  • Regluleg vöktun og greining á umhverfi og lífríki sjávar er ákaflega mikilvæg. Hún er grundvöllur upplýstrar ákvarðanatöku í umgengni við sjávarauðlindina og mikilvæg til að skilja breytingar sem verða í vistkerfum. Loftslagsbreytingar auka mikilvægi vöktunar og greiningar því þær geta haft hraðar og stundum víðtækar breytingar í för með sér.

  • Frá 1995 hefur hlýr og selturíkur Atlantssjór verið ráðandi fyrir norðan land. Talið er að á hafsvæðinu umhverfis landið verði áframhaldandi hlýindaskeið, eins og tvo síðustu áratugi.

  • Hækkandi sjávarhiti hefur áhrif á útbreiðslusvæði margra lífvera sjávar. Sumar hlýsjávartegundir hafa aukið útbreiðslu sína en útbreiðsla kaldsjávartegunda dregist saman. Sviðsmyndareikningar benda til þess að framhald verði á þessari þróun, að minnsta kosti hvað varðar fisktegundir. Tilfærsla hefur orðið í útbreiðslu margra tegunda hvala við landið samhliða aukningu í stofnstærð. Hrun í selastofnum má rekja til mikils veiðiálags.

  • Nýliðun margra hlýsjávartegunda hefur minnkað mikið á undanförnum árum. Þessa neikvæðu þróun má meðal annars rekja til breyttra umhverfisskilyrða í hafinu síðastliðin 20 ár.

  • Stofnar sjófugla hafa víða minnkað mikið vegna umhverfisbreytinga í hafi sem hafa haft áhrif á mikilvægar fæðutegundir, svo sem sandsíli og loðnu.

  • Vegna aðstæðna í hafinu við Ísland hefur súrnun sjávar orðið hraðari hér við land en að jafnaði í heimshöfunum. Útreikningar sýna að einungis ef styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum lækkar tekst að snúa súrnun sjávar við. Almennt eru áhrif súrnunar á lífverur neikvæð.

  • Það umbreytingaskeið sem fer í hönd á næstu áratugum mun valda álagi á vistkerfi sjávar. Mikilvægt er að öðru álagi, t.d. vegna ofnýtingar, rasks búsvæða og mengunar, sé haldið í lágmarki á sama tíma. Skilvirk fiskveiðistjórnun, byggð á víðtækri og samfelldri vöktun, verður því sífellt mikilvægari.

Erfitt er að greina áhrif hnattrænnar hlýnunar á breytingar á ástandi sjávar (hita og seltu) við Ísland. Þær breytingar sem orðið hafa á hita og seltu á hafsvæðinu umhverfis Ísland síðan 1995 fara ekki út fyrir mörk náttúrlegs breytileika. Frá 1995 til 2020 hefur hlýr og selturíkur Atlantssjór verið ráðandi fyrir norðan land. Talið er að á hafsvæðinu kringum landið verði áframhaldandi hlýindaskeið, eins og tvo síðustu áratugi.

Vegna aðstæðna í hafinu við Ísland hefur súrnun sjávar (lækkun á pH-gildi) orðið hraðari hér við land en að jafnaði í heimshöfunum og er súrnunin um 0,14 pH-einingar frá iðnbyltingu. Útreikningar sýna að aðeins er hægt að snúa súrnun sjávar við ef styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum lækkar. Almennt eru áhrif súrnunar á lífverur neikvæð. Kalkmyndandi lífríki er viðkvæmt auk þess sem súrnun sjávar getur haft áhrif á aðrar lífverur, eins og t.d. fiska.

Aukning hefur orðið á magni svifþörunga, bæði á Íslandsmiðum og á stóru svæði suður af Íslandi. Ekki hefur mælst viðvarandi lækkun á magni dýrasvifs á Íslandsmiðum, eins og á stóru svæði í Norður Atlantshafi, en talsverðar sveiflur eru þó milli ára. Meðalmagn plöntu- og dýrasvifs að vorlagi á Norðurmiðum er meira í hlýrri en kaldari árum. Fyrir norðan land hafa orðið breytingar á magni og útbreiðslu mikilvægra dýrasvifstegunda með hækkandi hitastigi sjávar. Þar hefur hlutur rauðátu aukist en kaldsjávartegundarinnar pólátu minnkað.

Hækkandi hitastig á íslenska landgrunninu hefur leitt til breytinga á útbreiðslu margra fisktegunda. Tegundir, til dæmis ýsa, sem hafa verið við nyrðri mörk útbreiðslu sinnar á Íslandsmiðum og fundist að mestu í hlýja sjónum sunnan og vestan við landið, hafa stækkað útbreiðslusvæði sitt til norðausturs. Á sama tíma hafa stofnstærðir kaldsjávartegunda, svo sem hlýra, loðnu og hrognkelsis, minnkað og útbreiðslusvæði færst til.

Frá árinu 2006 hefur fæðuslóð makríls breiðst út frá Noregshafi á Íslandsmið. Á sama tíma hefur sumarfæðuslóð loðnu færst í vestur frá Íslandshafi, upp að landgrunnskantinum við Austur-Grænland.

Nýliðun margra hlýsjávartegunda, svo sem humars, blálöngu og skötusels, hefur minnkað mikið á undanförnum árum. Þessa neikvæðu þróun má meðal annars rekja til breyttra umhverfisskilyrða í hafinu síðastliðin 20 ár. Um er að ræða tegundir sem halda sig aðallega í hlýjum sjó við suður og vesturströndina.

Tilfærsla hefur orðið í útbreiðslu margra tegunda hvala við landið samhliða aukningu í stofnstærð. Hrefna finnst nú aðallega lengra frá landi fyrir norðan land, en í minna mæli á landgrunninu. Stofnstærð flestra tegunda skíðishvala hefur aukist undanfarin 20 til 30 ár vegna umhverfisbreytinga og minnkandi veiðiálags. Hrun í selastofnum má rekja til mikils veiðiálags. Stofnar helstu sjófugla við landið hafa farið minnkandi á síðustu árum. Í sumum tilfellum má rekja það með óbeinum hætti til umhverfisbreytinga í hafinu við landið. Þannig hafa breytingar í stofnum fæðutegunda, eins og sandsílis og loðnu, leitt til lélegrar afkomu sjófugla.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Ástand sjávar og lífríki í sjó

Erfitt er að greina áhrif hnattrænnar hlýnunar á breytingar á ástandi sjávar (hita og seltu) við Ísland. Þær breytingar sem orðið hafa á hita og seltu á hafsvæðinu kringum Ísland síðan 1995 fara ekki út fyrir mörk náttúrlegs breytileika.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000