Ágrip úr skýrslunni

Atvinnuvegir

  • Loftslagsbreytingar, afleiðingar og viðbrögð við þeim gera loftslagsmál að einu stærsta efnahagsmáli samtímans. Aðlögunar er þörf.

  • Þekking á áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og atvinnulíf er forsenda viðbragða en rannsóknir skortir á Íslandi. Brýnt er að rannsóknir á samfélags- og efnahagslegum
    áhrifum loftslagsbreytinga og aðgerðum við þeim verði stórauknar.

  • Ræktunarmöguleikar nytjaplanta munu aukast en sveiflur í veðurfari, sníkjudýr, þurrkar og gróðureldar auka áhættu. Íslenskur landbúnaður og fæðuöryggi eru berskjölduð fyrir röskunum aðfangakeðja erlendis. Greina þarf þessa áhættu og grípa til viðeigandi aðgerða.

  • Hækkandi sjávarhiti við landið hefur þegar leitt til breytinga á útbreiðslu og stofnstærð nytjategunda og munu slíkar breytingar halda áfram. Súrnun sjávar hefur neikvæð áhrif, einkum á kalkmyndandi lífverur og nytjar þeirra. Rannsóknum á samspili hlýnunar og súrnunar sjávar er ábótavant sem og rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á fiskeldi.

  • Áhrif loftslagsbreytinga á ferðaþjónustu ráðast af breytingum á náttúrulegu umhverfi, landslagi, náttúruvá og breytingum á eftirspurn. Breytingar eru þegar sýnilegar og aðlögun ferðaþjónustu er hafin.

  • Fjármála- og vátryggingastarfsemi getur orðið fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum, haft áhrif á hvernig veðurtengdri áhættu er stýrt og hvernig bætt er fyrir afleiðingar
    alvarlegra veðuratburða og loftslagstengdra náttúruhamfara.

  • Loftslagsáhætta er vaxandi og mun hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fjármálakerfisins. Loftslagsáhætta almennrar bankastarfsemi felur í sér aukna fjárhagslega óvissu, áhættu og aukinn kostnað tengdum fjárfestingum og útlánum.

  • Loftslagstengd tjón hafa áhrif á rekstur vátryggingafélaga þar sem slíkir atburðir valda persónu- og eignatjóni. Búist er við að tíðni og umfang tjóna muni aukast og endurkomutími atburða styttast.

Loftslagsbreytingar, afleiðingar og viðbrögð við þeim gera loftslagsmál að einu stærsta efnahagsmáli samtímans. Áhrif á atvinnuvegi geta verið bæði bein og óbein, svo sem í gegnum aðfangakeðjur, og haft samfélags- og efnahagslegar afleiðingar.

Aðlögunaraðgerðir
geta mildað áhrifin og auðveldað að nýta á jákvæðan hátt þær umbreytingar sem felast í viðbrögðum við loftslagsbreytingum.

Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á ræktun nytjaplantna á Íslandi. Ræktunaröryggi mun aukast og nýjar plöntur teknar til ræktunar í landbúnaði, garðyrkju og skógrækt. Vegna breyttra ræktunarskilyrða mun jarðrækt á fæðu-, fóður-, viðar- og

orkuplöntum
aukast. Sveiflur í veðurfari, sníkjudýr, þurrkar og gróðurreldar geta þó aukið áhættu.

Röskun í aðfangakeðjum getur haft umtalsverð óbein áhrif á hefðbundið dýrahald, sem er að hluta háð innfluttu kjarnfóðri, svo sem í nautgripa-, svína og kjúklingarækt. Loftslagsbreytingar munu hafa lítil bein áhrif á hefðbundið dýrahald.

Stefna stjórnvalda í loftslagsmálum og aðgerðir þeirra til að draga úr losun, og samsvarandi breytingar á neysluhegðan almennings, geta haft áhrif á afkomu þeirra greina landbúnaðarins sem í dag eru ábyrgar fyrir mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Fæðuöryggi hérlendis er undir bæði beinum og óbeinum áhrifum loftslagsbreytinga.

Umtalsverð verðmæti eru falin í veiðihlunnindum tengdum laxi, bleikju og urriða. Undanfarin ár hafa stofnar bleikju verið á undanhaldi en stofnar urriða að styrkjast meðan laxastofnar hafa haldist nokkuð jafnir. Sú þróun hefur mælst í stofnum á nær öllu landinu og á sér einnig stað á sama tíma í norðanverðum Noregi. Samhliða þróun á svo stóru svæði hefur meðal annars verið tengd við hnattrænnar loftslagsbreytingar, s.s. bein og óbein áhrif hækkunar á vatnshita. Ef þessi þróun heldur áfram gæti þurft að draga úr veiðisókn í hnignandi stofna.

Hækkandi sjávarhiti og súrnun sjávar hafa áhrif á sjávarútveg. Hækkun á hitastigi sjávar veldur breytingum á útbreiðslu og stofnstærð nytjategunda. Slíkar breytingar geta haft áhrif á heildarafla og aflasamsetningu og orsakað auknar deilur milli þjóðríkja vegna

deilistofna
. Veðurfarsbreytingar geta haft áhrif á aðstæður til sjósóknar og á markaði.

Hækkandi sjávarhiti á íslenska landgrunninu hefur þegar leitt til breytinga á útbreiðslu margra botnfisktegunda við landið, svo sem ýsu, þorsks og skötusels, og munu slíkar breytingar halda áfram. Nytjategundir, sem hafa verið við nyrðri mörk útbreiðslu sinnar á Íslandsmiðum, hafa nú þegar og munu áfram stækka útbreiðslusvæði sitt til norðausturs. Á sama tíma gætu stofnstærðir og útbreiðsla kaldsjávartegunda t.d. hlýra, hrognkelsa og loðnu, minnkað. Þessar breytingar geta haft áhrif á tilhögun og afkomu veiða. Samspil tegunda og nýtingar í vistkerfi sjávar er afar flókið og nauðsynlegt að þróa og nota fjölstofna vistkerfislíkön við mat á áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg.

Súrnun sjávar, sem er örari á íslensku hafsvæði en víða annars staðar, hefur víðtæk neikvæð áhrif, einkum á kalkmyndandi lífverur. Slíkar lífverur eru mikilvægar í vistkerfi og fæðuvef sjávar og jafnframt nýttar sem matvæli eða til iðnaðarframleiðslu, s.s. skelfiskur og kalkþörungar. Súrnun sjávar mun hafa neikvæð áhrif á nýtingu þeirra. Rannsóknum á samspili hlýnunar og súrnunar sjávar er ábótavant, en þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna að í heildina virðast áhrif hlýnunar á sjávarútveg vega þyngra en áhrif súrnunar sjávar.

Frekari rannsókna er þörf á efnahags- og samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg, svo sem á afkomu, atvinnu, byggðaþróun og viðnámsþrótt samfélaga. Gæta þarf sérstaklega að sjávarbyggðum vegna áhrifa á sjávartengdar nytjar, veðurtengdra áhrifa á sjósókn og aukinnar hættu af náttúruvá.

Áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi geta t.d. verið staðbundnar breytingar á vaxtarhraða eldistegunda, nýir sjúkdómar og sníkjudýr, breytt afkastageta svæða, áhrif á bæði aðfanga- og virðiskeðju, einkum þegar kemur að fóðurframleiðslu, og áhrif veðuröfga á innviði. Rannsóknum er ábótavant á áhrifum loftslagsbreytinga á fiskeldi á Íslandi.

Áhrif loftslagsbreytinga á ferðaþjónustu helgast af breytingum á náttúrulegu umhverfi, landslagi, náttúruvá og breytingum á eftirspurn. Breytingarnar eru þegar sýnilegar, svo sem í Kerlingarfjöllum, og marktæk fylgni er milli breytinga á sjávarhita og sýnileika hvalategunda á Skjálfandaflóa. Loftslagsbreytingar geta haft neikvæð áhrif á öryggi ferðamanna, t.d. í samhengi aukinnar náttúruvár.

Eftirspurn eftir ferðalögum til norðlægra landa gæti aukist, a.m.k.
til skamms tíma, og þá sérstaklega ásókn til þeirra áfangastaða sem eru viðkvæmir fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, svo sem jökla eða jökullóna (sjá mynd 1). Mögulegt er að loftslagsbreytingar auki eftirspurn eftir ferðaþjónustu á Íslandi, a.m.k. í náinni framtíð. Þó geta aðgerðir í loftslagsmálum og neikvæð viðhorf til langra ferðalaga, sem leiða til mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, dregið úr eftirspurn. Ferðaþjónustan getur spyrnt við fótum með vist- og

loftslagsvænni uppbyggingu
. Íslensk ferðaþjónusta hefur hafið
aðlögunaraðgerðir
vegna loftslagsbreytinga og aukinnar eftirspurnar eftir vistvænni ferðaþjónustu. Aðlögun í jökultengdri ferðaþjónustu er ýmist venjubundin eða sem viðbragð við sýnilegri áhættu eða tækifærum.

Vátrygginga- og fjármálastarfsemi getur orðið fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum, haft áhrif á hvernig veðurtengdri áhættu er stýrt og hvernig bætt er fyrir afleiðingar alvarlegra veðuratburða og loftslagstengdra náttúruhamfara.

Loftslagstengd veðurfarstjón hafa áhrif á rekstur vátryggingafélaga, þar með talið Náttúruhamfaratrygginga Íslands, þar sem slíkir atburðir valda persónu- og eignatjóni. Búist er við að tíðni og umfang tjóna muni aukast og endurkomutími atburða styttast. Loftslagstengdir atburðir annars staðar í heiminum geta einnig haft áhrif á rekstur vátryggingafélaga innanlands vegna endurtryggingasamninga við erlend vátryggingafélög.

Áhrif loftslagsbreytinga á vátrygginga- og fjármálastarfsemi skiptist í raunlæga áhættu, svo sem vegna tjóns á eignum, og umbreytingaráhættu vegna aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða vegna

aðlögunaraðgerða
. Vátrygginga- og fjármálastarfsemi þarf í auknum mæli að upplýsa um umhverfis- og
loftslagsáhættu
sem tengist rekstri hennar, til að mynda hvernig
loftslagsáhætta
er skilgreind, hvernig hún er metin og hvernig henni er stýrt.

Loftslagsbreytingar tengjast umboði og hlutverki Seðlabanka Íslands, s.s. í samhengi fjármálastöðugleika, fjármálaeftirlits og peningaeftirlits. Loftslagsáhætta er vaxandi og mun hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fjármálakerfisins. Greiningar og haglíkön þurfa að taka tillit til

loftslagsáhættu
, meta þarf áhrif á gæði eignasafna fjármálafyrirtækja og þróa þarf álagspróf. Fjármálaeftirlit þarf að tryggja að upplýsingagjöf sé í samræmi við Evrópureglur og taka þarf tillit til
loftslagsáhættu
við framkvæmd peningastefnu.

Loftslagsáhætta
almennrar bankastarfsemi felur í sér aukna fjárhagslega óvissu, áhættu og aukinn kostnað tengdum fjárfestingum eða útlánum. Greiningargeta banka á þessum áhrifum er þó fremur skammt á veg komin. Innlendir bankar eru aðilar að reglum um ábyrgar fjárfestingar og reglum um ábyrga bankastarfsemi. Græn skuldabréf eru dæmi um vöru sem hvetja til fjárfestinga í loftslagsvænum verkefnum og hafa íslensk fjármálafyrirtæki, sveitarfélög og önnur fyrirtæki gefið út slík skuldabréf.

Viðbrögð við loftslagsbreytingum munu leiða til atvinnu- og iðnþróunar sem oft byggir á nýsköpun og eru nú þegar nokkur dæmi þess á Íslandi. Viðbrögðin kalla einnig á nýsköpun hjá fjármálafyrirtækjum.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Atvinnuvegir

Loftslagsbreytingar, afleiðingar og viðbrögð við þeim gera loftslagsmál að einu stærsta efnahagsmáli samtímans. Áhrif á atvinnuvegi geta verið bæði bein og óbein, svo sem í gegnum aðfangakeðjur, og haft samfélags- og efnahagslegar afleiðingar. Aðlögunaraðgerðir geta mildað áhrifin og auðveldað að nýta á jákvæðan hátt þær umbreytingar sem felast í viðbrögðum við loftslagsbreytingum.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000