Ágrip úr skýrslunni

Meginatriði og ályktanir

Samantekt staðreynda
Loftslagsbreytingar hafa haft umtalsverð áhrif á náttúru Íslands, s.s. afkomu jökla, vatnafar, lífríki á landi og aðstæður ísjó. Veðurfar og náttúruaðstæður á landinu og í hafinu umhverfis það verða í lok aldarinnar án fordæma frá upphafi byggðar á Íslandi. Súrnun sjávar og hlýnun munu breyta umhverfisaðstæðum og útbreiðslusvæðumtegunda í hafi.

Umtalsverð áhrif loftslagsbreytinga á atvinnuvegi, uppbyggða innviði og efnahag skapa verulegar áskoranir jafnvel í geirum þar sem viðbrögð við hlýnun geta haft jákvæð áhrif í för með sér. Sjávarstöðubreytingar og aukin náttúruvá geta aukið samfélagslegt tjón og áhrif loftslagsbreytinga erlendis skapað umtalsverða kerfisáhættu hérlendis, t.d. með áhrifum á aðfangakeðjur, fæðuöryggi og lýðheilsu. Loftslagsbreytingar eru talin ein stærsta heilsufarsógn sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Loftslagsvandinn er efnahagsmál og seðlabankar leggja mat á

loftslagsáhættu
fyrir fjármála- kerfi og fjármálastöðugleika. Aðlögun að og viðbrögð við loftslagsbreytingum hafa í för með sér áskoranir sem krefjast umbyltingar í iðnaði og tækni. Áhrif loftslagsbreytinga ná meðal annars til félagslegra innviða, menningar, sjálfsmyndar þjóðar og vekja upp siðferðilegar spurningar gagnvart öðrum þjóðum, komandi kynslóðum og vistkerfum.

Ályktanir nefndar

  • Mikilvægt er að draga sem mest úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlagast þeim breytingum sem óumflýjanlegar eru.

  • Ábendingar úr fyrri skýrslum vísindanefndar, um að áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi verði ekki umflúin, hafa komið fram.

  • Regluleg vöktun og greining á náttúrufari, lífríki og samfélagi er forsenda þess að hægt sé að fylgjast með þeim umbreytingum sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér. Mikilvægt er að fjármögnun og önnur nauðsynleg aðföng séu tryggð. Samstarf ólíkra vísindahópa og opið aðgengi að gögnum er lykilatriði svo niðurstöður nýtist sem víðast.

  • Fjármögnun loftslagsaðgerða, þar með talið aðlögunar, þarf að vera trygg. Mikilvægt er að auknir efnahagslegir hvatar séu til staðar fyrir aðlögun og samdrátt í

    nettólosun
    gróðurhúsalofttegunda. Mismunandi form fjármögnunar þarf að vera til staðar og samkeppnissjóðir henta ekki fyrir allar tegundir aðgerða.

  • Mikilvægt er að mótvægis- og

    aðlögunaraðgerðir
    auki ekki misskiptingu í samfélaginu. Sé þess ekki gætt eykst hætta á að það dragi úr áhrifum aðgerða, þær missi marks og skapi jafn vel aðrar samfélagslegar áskoranir.

  • Skipuleggja þarf alla ræktun vel, t.d. í nýjum frístundabyggðum, landbúnaði og skógrækt. Við mat á nýjum svæðum þarf að taka tillit til nágrannasvæða þeirra, dreifingar aðfluttra tegunda og áhrifa á líffræðilegan fjölbreytileika.

  • Áhrif loftslagsbreytinga og súrnun sjávar munu á næstu áratugum valda breytingum og álagi á vistkerfi sjávar. Mikilvægt er að öðru álagi, t.d. vegna ofnýtingar, rasks búsvæða og mengunar, sé haldið í lágmarki. Skilvirk fiskveiði- stjórnun verður eingöngu tryggð með samfelldum rannsóknum og vöktun.

  • Áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar á landi eru auðsæ og víðfeðm og mælingar benda til að áhrifin aukist stöðugt. Rannsóknir þurfa að fylgja eftir þessum hröðu breytingum sem kallar á aukið samstarf ólíkra hópa hvað varðar mælingar, vöktun, greiningar og hermilíkön.

  • Sjávarstöðubreytingar verða mikil áskorun fyrir strandsamfélög og mikilvægt að takast á við þær svo draga megi úr framtíðartjóni. Brýnt er að vanda tilskipulagsákvarðana því þær munu hafa áhrif löngu eftir að sjávarstaða hækkar verulegra.

  • Aukin náttúruvá, svo sem vegna aftakaúrkomu, hvassviðra, hættu á flóðum í ám og úr jaðarlónum, skriðufalla, sjávarflóða, tíðari eldgosa og gróðurelda, kallar á að áhættustýring sé í stöðugri endurskoðun og taki tillit til sviðsmynda.

  • Áhættumat og áhættustýring er nauðsynlegur hluti af aðlögun að loftslagsbreytingum. Greina þarf

    loftslagsáhættu
    fyrir alla geira og samfélagshópa svo grípa megi til viðeigandi aðgerða til að draga úr henni. Þar gegnir fjármála- og vátryggingageirinn lykilhlutverki.

  • Áhættustýring og aðlögun geta dregið úr því tjóni sem atvinnuvegir verða fyrir og í sumum tilvikum geta aðgerðir skilað ábata, svo sem innan landbúnaðarins og orkugeirans. Langtímastefnumörkun um uppbyggingu innviða og markviss auðlindastýring er nauðsynleg í þessu samhengi.

  • Þekkingu á kerfislægum áhættum tengdum loftslagsbreytingum er mjög ábótavant. Þetta á m.a. við hvað varðar áhrif loftslagsbreytinga í öðrum löndum og afleiðingar þess fyrir íslenskt samfélag. Útbúa þarf og innleiða viðbragðsáætlanir til þess að bregðast við slíkum áhættum til langs tíma.

  • Skilningur á samfélags- og menningarlegum víddum loftslagsbreytinga er afar mikilvægur, ekki síst til að tryggja réttlæti, styðja við lýðræði og loftslagsaðgerðir. Mikill skortur er á rannsóknum á þessu sviði og því er brýnt að þær verði efldar.

  • Skilningur á áhrifum loftslagsbreytinga á efnahag, atvinnuvegi og afleiddum samfélagslegum áhrifum er forsenda loftslagsaðgerða. Brýnt er að stórauka rannsóknir á hagrænum áhrifum loftslagsbreytinga og viðbrögðum við þeim.

  • Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á ýmsa uppbyggða innviði, svo sem innviði samgangna, vatnsveitna, fráveitu, orkuöflunar og -dreifingar. Minni vatnsveitur og þau samfélög sem nýta þær eru berskjaldaðri fyrir áhrifum. Meta þarf áhrif á eftirspurn, áhættu og forgangsraða aðgerðum.

  • Nauðsynlegt er að auka þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á lýðheilsu, heilbrigðiskerfi og samfélag í víðasta skilningi. Samhliða vaxandi þekkingu á þessu sviði á alþjóðavísu og stöðu áhrifaþátta heilbrigðis á Íslandi hafa skapast betri forsendur til að bæta stöðu þekkingar hvað þetta varðar. Í þessu samhengi þarf m.a. að horfa til mannfjöldaþróunar, þar með talið loftslagsflóttafólks, og annarra lýðfræði- og samfélagslegra breytinga.

  • Sveitarfélög á Íslandi eru enn sem komið er ekki nægilega vel í stakk búin til þess að takast á við áskoranir sem felast í loftslagsbreytingum. Nauðsynlegt er að þau hafi fjármagn, gögn og verkfæri til þess að sinna sínum skyldum. Aukin samvinna ríkis og sveitarfélaga er þar lykilatriði.

  • Tryggja þarf undirstöður loftslagsþolins skipulags með skýrum markmiðum, leiðbeiningum, hvatningu og stuðningi við skipulagsyfirvöld í héraði. Mikilvægt er að tekið sé meira tillit til aukinnar náttúruvár við skipulagsgerð.

Þessi skýrsla staðfestir, svo ekki verður um villst, að loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Til að tryggja að þær áskoranir verði ekki meiri en við er ráðið þarf umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna. Þar gegna stjórnvöld, atvinnulíf og stefnumótendur lykilhlutverki. Draga þarf úr losun eins hratt og unnt er og aðlaga samfélagið þannig að það ráði við álagið. Loftslagsvá er viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þarf andvaraleysi gagnvart áhættunni

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Meginatriði og ályktanir

Þessi skýrsla staðfestir, svo ekki verður um villst, að loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Til að tryggja að þær áskoranir verði ekki meiri en við er ráðið þarf umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna. Þar gegna stjórnvöld, atvinnulíf og stefnumótendur lykilhlutverki. Draga þarf úr losun eins hratt og unnt er og aðlaga samfélagið þannig að það ráði við álagið. Loftslagsvá er viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þarf andvaraleysi gagnvart áhættunni.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000