Ágrip úr skýrslunni

Lífríki á landi

  • Fyrirsjáanlegar loftslagsbreytingar auka þörf á vöktun og rannsóknum á ýmsum þáttum náttúrufars. Vísindanefnd ítrekar fyrri ábendingar um að mikilvægt sé að skipuleg viðbrögð við loftslagsvá byggi á haldbærum rannsóknum og þekkingaröflun. Mikilvægt er að skipuleggja og fjármagna vöktun á lykilþáttum íslenskrar náttúru.

  • Mikilvægt er að hugað sé vel að skipulagi allrar ræktunar, t.d. í frístundabyggðum, landbúnaði og skógrækt, og tekið sé tillit til nágrannasvæða, líffræðilegrar fjölbreytni og möguleika á dreifingu aðfluttra tegunda.

  • Þekking á kolefnisforða íslensks jarðvegs er brotakennd og þarf átak til að bæta þekkingargrunninn. Það er sérstaklega mikilvægt til að hægt sé að leggja mat á gildi

    mótvægisaðgerða
    sem fela í sér breytta landnotkun.

  • Mikil þörf er á að laga hermilíkön að íslenskri jarðrækt til að hægt verði að skoða sameiginleg áhrif hitafars og úrkomu betur.

  • Samstarf ólíkra vísinda- og rannsóknarhópa er mjög mikilvægt fyrir rannsóknir á náttúrufari á Íslandi og breytingar á því. Opin gagnastefna skiptir miklu máli sem hvati til slíks samstarfs og leið til betri nýtingar starfskrafta og fjármuna. Auk þess dregur slíkt úr hættu á gloppum í þekkingu á náttúrufarsbreytingum.

Náttúra landsins

Ábendingar úr fyrri skýrslum vísindanefndar, um að áhrif

loftslagsbreytinga
á íslenska náttúru verði ekki umflúin, hafa komið fram. Áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar á Íslandi eru auðsæ og víðfeðm og mælingar benda til að áhrifin aukist stöðugt.


Loftslagsbreytingar hafa haft talsverð áhrif á útbreiðslu tegunda. Hlýnandi loftslag hefur til
dæmis átt þátt í að gera innfluttum skordýrategundum kleift að ná hér fótfestu (sjá myndir 1 og 3) og leitt til breytinga á útbreiðslu innlendra tegunda

Hlýnun mun valda hraðari breytingum á gróðurfari landsins eftir miðja öldina, bæði á innlendum og aðfluttum tegundum til landbúnaðar, garðræktar og skógræktar. Allt bendir til að hlýnunin muni auðvelda fleiri aðfluttum tegundum að dreifast út fyrir ræktunarsvæði sín og nánast er öruggt að einhverjar þeirra reynist ágengar í íslenskri náttúru. Þróun í annarri landnýtingu, svo sem beit búsmala, mun einnig hafa mikil áhrif á þessa þróun

Horfur eru á að skilyrði fyrir vaðfugla fari versnandi víða hérlendis á komandi áratugum.
Þar koma meðal annars við sögu gróðurbreytingar vegna hlýnandi loftslags ásamt áformum um stóraukna ræktun, skóga og

orkuplantna
, sem
mótvægisaðgerð
gegn loftslagsbreytingum. Slíkt getur falið í sér umfangsmikið búsvæðatap fyrir vaðfugla. Aukin endurheimt votlendis gæti þó komið vaðfuglum til góða.

Skammtímaveðuröfgar geta í sumum tilfellum verið meiri áhrifavaldar en meðalbreytingar til lengri tíma litið. Dæmi um slíkt á Íslandi eru neikvæð áhrif veðuröfga á viðkomu rjúpu og fálka.

Mikil fjölgun í stofni tófu á undanförnum áratugum hefur verið tengd við hlýnandi loftslag. Á síðastliðnum árum hafa komið fram vísbendingar um minnkandi viðkomu hjá tegundinni á ákveðnum svæðum, sem mögulega má rekja til loftslagsdrifinna breytinga á fæðustofnum hennar.

Víða erlendis hefur átt sér stað fækkun í hreindýrastofnum og er hún talin tengjast loftslagsbreytingum. Slíkra neikvæðra áhrifa gætir ekki hjá íslenska hreindýrastofninum, enn sem komið er, en lítill erfðabreytileiki gerir stofninn viðkvæman fyrir umhverfisbreytingum.

Fjórar stórar rannsóknir, þar sem hitabreytingum í náttúrulegum kerfum er stýrt, gefa til kynna að áhrif hlýnunar á lífríki mismunandi gróðurlenda og straumvatns geti orðið veruleg ef hlýnun heldur áfram auk þess sem áhrif úrkomubreytinga geta reynst umtalsverð.

Ferskvatnsvistkerfi

Stofnstærð bleikju dregst saman í flestum landshlutum á sama tíma og stofnar urriða eru í uppsveiflu og laxastofnar haldast nokkuð stöðugir. Samskonar þróun í stofnstærð þessara þriggja tegunda er að finna í Norður-Noregi. Hlýnun er talin vera mikilvægur áhrifaþáttur þar sem bleikja er kuldakær tegund og lifir við lægra kjörhitastig en hinar tvær tegundirnar.

Ársmeðalhiti Þingvallavatns hefur hækkað um 0,15 °C á áratug. Langtímavöktun og rannsóknir hafa sýnt breytingar í stofnstærð og lífeðlisfræði bleikjuafbrigða í kjölfar hlýnunar vatnsins. Stofnstærð murtu hefur hrunið og vaxtarhraði ungviðis allra fjögurra afbrigða hefur tekið breytingum. Á sama tíma hefur stofnstærð urriða vaxið meðan magn sviflægra þörunga og krabbadýra hefur minnkað.

Vísbendingar eru um að hlýnun sjávar eigi þátt í fjölgun hnúðlax (sjá mynd 2 í Norður-Atlantshafi. Hér á landi hefur verið töluverð aukning í veiði á hnúðlaxi og enn meiri í Noregi, þar sem tegundin er farin að valda verulegum vandræðum.

Mynd 2: Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha) er nýr landnemi í íslenskum ám. Hans varð fyrst vart árið 1960 en hefur fjölgað undanfarin ár.

Smittíðni nýrnasýkingar (PKD) í laxfiskum hefur aukist á undanförnum árum, bæði í vötnum á láglendi og á hálendi, og eru dæmi um allt að 97% smittíðni í sumum vötnum. Sýkingin getur valdið afföllum en nær sér ekki á strik nema að vatnshiti hafi náð 12-15 °C í 1-3 mánuði. Hækkun vatnshita í kjölfar hlýnunar getur því haft töluverð neikvæð áhrif á afkomu laxfiska.

Landnotkun og ræktun

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar er hlutfallslega mikil af heildarlosun og því mikilvægt að tölur um kolefnisbúskap vistkerfa séu vel undirbyggðar með vönduðum rannsóknum og
vöktun. Frekari rannsóknir skortir um losun frá landi og vegna breytinga á landnotkun. Þekking á kolefnisforða íslensks jarðvegs er brotakennd og þarf átak til að bæta þekkingargrunninn.

Ekki hefur farið fram almenn úttekt á núverandi og væntanlegum áhrifum loftslagsbreytinga á landbúnað, garðyrkju, skógrækt og landgræðslu síðan snemma á þessari öld. Né heldur fjallað skipulega um aðlögun að komandi loftslagsbreytingum innan þessara geira, nema þá helst fyrir
skógrækt og kornrækt.

Ýmsar umhverfisaðstæður landbúnaðar munu breytast verulega á komandi áratugum. Til að skilja betur hvernig þær munu eiga sér stað er mikilvægt að hermilíkön séu löguð að íslenskum aðstæðum og fyrir mismunandi búgreinar

Jafnvel þó að úrkoma kunni að aukast með hlýnun eykst útgufun einnig og meiri úrkomu
þarf til að viðhalda sama rakastigi í jarðvegi og áður. Haldi aukning úrkomu ekki í við útgufun
geta áhrif á ræktun orðið neikvæð. Skortur er á skipulegum rannsóknum þar sem skoðuð eru
sameiginleg áhrif úrkomu og hitafars.

Jafnvel þó að markmið Parísarsamningsins, um að halda hnattrænni hlýnun innan 2 °C, náist munu ræktarskilyrði hér verða gjörbreytt í lok aldarinnar frá því sem nú er. Síðustu ár var hitafar slíkt að rækta mátti korn til skepnufóðurs á helmingi láglendis. Raungerist hlýrri sviðsmyndir verður hægt að rækta það til manneldis á nær öllu ræktarlandi.

Nautgriparækt (og mjólkurframleiðsla) er loftslagsháð búgrein þar sem hún byggir á hágæða fóðurframleiðslu. Sauðfjárrækt og hrossarækt eru ekki eins næmar fyrir loftslagsbreytingum.

Kolefnishringrásin og

mótvægisaðgerðir
tengdar landi

Í skýrslunni er yfirlit yfir kolefnishringrás lands og samfélags uppfært með nýjustu vísindalegu þekkingu. Árið 2021 var bein losun manna á CO2, sem er mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin,
um 3,5 milljónir tonna og hafði aukist um 4,5% frá 2015. Enn stefnir því í öfuga átt hvað varðar beina losun CO2 frá samfélaginu, sem er talsvert áhyggjuefni.

Ný greining á kolefnisforða vistkerfa alls landsins sýnir að náttúruskógar, skógræktarsvæði, tún og akrar, sem aðeins þekja tæplega 4% landsins, bera um 50% af ofanjarðarlífmassa þess. Annað vel gróið land, mýrlendi, graslendi og mólendi, þekja samtals um 32% landsins og bera 39% af ofanjarðarlífmassanum.

Nýir hvatar, sem stjórnvöld hafa komið á eftir 2020 til að hvetja einkageirann til þátttöku í verkefnum sem snúa að

mótvægisaðgerðum
gegn loftslagsbreytingum, eru smátt og smátt að auka þunga þeirra. Árleg metin kolefnisbinding (og samdráttur losunar vegna endurheimtar votlendis) hefur aukist um 33% frá 2015.

ALLUR KAFLINN Í SKÝRSLUNNI

Lífríki á landi

Fyrirsjáanlegar loftslagsbreytingar auka þörf á vöktun og rannsóknum á ýmsum þáttum náttúrufars. Vísindanefnd ítrekar fyrri ábendingar um að mikilvægt sé að skipuleg viðbrögð við loftslagsvá byggi á haldbærum rannsóknum og þekkingaröflun. Mikilvægt er að skipuleggja og fjármagna vöktun á lykilþáttum íslenskrar náttúru.

© Veðurstofa Íslands 2023

Bústaðavegi 7-9

105 Reykjavík

Kt. 630908-0350

Sími: 552-6000